Erlent

Staðfestir dauða al Qaeda liðans al-Badawi

Andri Eysteinsson skrifar
YAHYA ARHAB MICHAEL REYNOLDS
YAHYA ARHAB MICHAEL REYNOLDS EPA/ Yahya Arhab/ Michael Reynolds
Bandaríkjaforseti, Donald Trump, greindi í dag frá dauða jemenska hryðjuverkamannsins Jamal al-Badawi. Al-Badawi var einn skipuleggjanda árásarinnar á bandaríska herskipið USS Cole í október ársins 2000.

Árásin á USS Cole var gerð þann 12. október árið 2000, verið var að fylla á eldsneytistanka herskipsins í hafnarborginni Aden í Jemen. Á meðan að á þeirri aðgerð stóð sigldu hryðjuverkamenn upp að bakborða skipsins í hraðbát fullum af sprengiefni. Auk hryðjuverkamannanna tveggja létust 17 skipverjar og 39 særðust.

Hryðjuverkasamtökin al-Qaeda lýstu yfir ábyrgð á árásinni og árið 2004 var al-Badawi dæmdur til dauða í Jemen vegna aðildar sinnar að árásinni. Bandarískir dómstólar komust einnig að því að afríkuríkið Súdan bæri einhverja ábyrgð á árásunum.



Al-Badawi tókst þó að flýja úr haldi og hafði verið á lista alríkislögreglunnar FBI þar til að hann lést á nýársdag í loftárás Bandaríkjahers. Loftárásin var gerð yfir Ma'rib héraði Jemen, heimalands al-Badawi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×