Það er eitthvað minna um það að hægt sé að stunda skíði í Bláfjöllum þessa dagana. Tuttugu metrar á sekúndu, rigning og sex stiga hiti og ekkert í kortunum um að snjórinn sé að koma. Menn vilja hins vegar fara drífa það af stað að hefja snjóframleiðslu.

„Í raun og veru er allt klárt fyrir útboð. Við erum búin að taka útboðsgögnin saman og við erum í raun núna í bið því að við erum að bíða eftir að fá úr því skorið hvort að framkvæmdirnar þurfi að fara í umhverfismat eða ekki,“ segir Magnús Árnason, framkvæmdastjóri Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.

Málið á borði Skipulagsstofnunar
Magnús segir að búist hafi verið við því að hægt hefði verið að hefja framkvæmdir strax en þegar upp var staðið hafi ákveðnir aðilar óskað eftir því að uppbyggingin færi í umhverfismat.„Þá sjáum við fram á einhverja frestun, við vitum ekki nákvæmlega hversu löng hún verður en ef að allt gengur vel og að við fáum þetta í gang, þá getum við hafist handa strax næsta sumar,“ segir Magnús.
Magnús segir að málið sé nú á borði Skipulagsstofnunar og að frekari töf hafi áhrif á tekjuöflun skíðasvæðanna.
„Við erum nú í raun búin að vera í bið með uppbyggingu síðan 2004 má segja. Þegar við ætluðum að fara í breytingar á deiliskipulagi árið 2010 þá fóru af stað rannsóknir varðandi vatnsverndina og þá hvort við værum ógn við vernd við vatnið. Það fór allt að snúast um það hvort skíðasvæðið í Bláfjöllum ætti rétt á að vera þar sem það er eða ekki,“ segir Magnús.

„Ástæðan fyrir því að við þurfum að fara í verulega uppbyggingu er vegna þess að það er kominn aldur á lyfturnar og svo þurfum við snjóframleiðslu til þess að tryggja okkur stöðugri rekstur,“ segir Magnús.