Viðskipti innlent

Fólki í fæðingarorlofi sagt upp og VR vill svör

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Skúli Mogensen neyddist til að segja upp rúmlega hundrað starfsmönnum WOW air í desember. Hluti þeirra hefur leitað til VR.
Skúli Mogensen neyddist til að segja upp rúmlega hundrað starfsmönnum WOW air í desember. Hluti þeirra hefur leitað til VR. Fréttablaðið/Anton Brink
Verkalýðsfélagið VR hefur undanfarið fengið nokkur mál starfsmanna WOW air inn á sín borð vegna hópuppsagnanna hjá flugfélaginu í síðasta mánuði. Málin eiga það sameiginlegt að þar eru starfsmenn í fæðingarorlofi að kanna rétt sinn. Framkvæmdastjóri VR segir almennt ólöglegt að segja fólki upp í fæðingarorlofi nema gildar ástæður séu gefnar í skriflegum rökstuðningi. Þann rökstuðning hafi vantað frá WOW.

„Það hafa nokkrir leitað til okkar sem svo var ástatt um og það er verið að kalla eftir rökstuðningi fyrir uppsögninni. Þegar fólki í fæðingarorlofi er sagt upp þarf að fylgja rökstuðningur,“ segir Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR, aðspurður um málin.

Hann vísar til 30. greinar laga um fæðingarorlof þar sem segir að óheimilt sé að segja starfsmanni upp störfum vegna þessa að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða er í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Sama gildir um uppsagnir þungaðra kvenna og kvenna sem nýlega hafa alið barn.

„Meginreglan er sú að það er bannað að segja fólki upp í fæðingarorlofi. Það er meginreglan, en það er heimilt ef gildar ástæður eru fyrir hendi eins og lögin segja, þá þarf þennan skriflega rökstuðning. Það er verið að kalla eftir honum og bíða.“

Þann 13. desember síðastliðinn greindi Fréttablaðið.is fyrst frá því að yfirvofandi væru stórfelldar uppsagnir og uppstokkun hjá WOW air. Svo fór að síðar þann dag tilkynnti félagið að 111 fastráðnum starfsmönnum hefði verið sagt upp og að samningar við verktaka og tímabundna starfsmenn yrðu ekki endurnýjaðir. Þá var fækkað verulega í flugvélaflota félagsins.

„WOW air telur gildar ástæður vera fyrir þeim uppsögnum sem félagið fór í í desember og er í góðum samskiptum við stéttarfélög vegna uppsagnanna,“ segir í skriflegu svari WOW air við fyrirspurn Fréttablaðsins vegna málsins.



Mynd/VR

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×