Nýtt lagafrumvarp frá dómsmálaráðuneytinu í Danmörku á að tryggja að refsingar fyrir andlegt ofbeldi verði jafnþungar og refsingar fyrir líkamlegt ofbeldi, að því er danskir fjölmiðlar greina frá.
Dómsmálaráðherra Danmerkur, Søren Pape Poulsen, segir marbletti eftir líkamlegt ofbeldi hafa verið sýnilega. Örin á sálinni hafi hins vegar gleymst. Þau geti jafnvel verið enn dýpri en hin, er haft eftir ráðherranum í fréttatilkynningu.
Samkvæmt frumvarpinu verður hægt að dæma þá sem beita andlegu ofbeldi í allt að þriggja ára fangelsi. Framkvæmdastjóri samtaka sem vinna að því að aðstoða konur og börn sem orðið hafa fyrir heimilisofbeldi fagnar frumvarpinu.
