Þau Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Salvör Nordal, umboðsmaður barna, munu ekki sitja í siðanefnd Alþingis er nefndin fær Klaustursmálið svokallaða inn á borð til sín á næstunni.
Frá þessu var greint í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins en þar sagði að Hafsteinn Þór hefði óskað eftir að hætta í nefndinni. Sú ákvörðun væri þó algjörlega óháð Klaustursmálinu. Margrét Vala Kristjánsdóttir, varamaður Hafsteins, mun taka sæti hans í nefndinni.
Þá óskaði Salvör eftir því að víkja sæti vegna anna í starfi hennar sem umboðsmaður barna. Komin er tillaga um staðgengil hennar og mun forsætisnefnd Alþingis afgreiða þá tillögu á fundi sínum á morgun.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrrverandi alþingismaður, er formaður nefndarinnar og situr áfram í henni.
Tveimur af þremur skipt út í siðanefnd Alþingis

Tengdar fréttir

Sökuðu forseta Alþingis um valdníðslu og lögbrot
Alþingi kaus í dag tvo nýja varaforseta tímabundið til að fara með Klaustursmálið svokallaða þar sem forsætisnefnd þingsins hafði lýst sig vanhæfa til að fara með málið.

Inga segir Miðflokksþingmenn hvorki hafa iðrast né sýnt hógværð
Inga Sæland segist ekki hafa treyst sér inn í þingsal Alþingis í dag eftir að þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason sneru aftur til þingstarfa.

Fullyrðingar Sigmundar um brot á þingskaparlögum standast ekki
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, telur kosningu nýrrar forsætisnefndar Alþingis til að fjalla um Klaustursmálið stangast á við lög um þingsköp á „víðtækan hátt.“ Til stendur að kjósa forsætisnefndina þegar leitað hefur verið afbrigða eins og skýr heimild er fyrir í þingskaparlögum.