Atletico Madrid heldur áfram að elta Barcelona í La Liga en liðið vann öruggan 2-0 sigur á Getafe á Wanda Metropolitano leikvangnum í Madrid í dag.
Antoine Griezmann og Saul Niguez sáu til þess en þeir skoruðu með tíu mínútna millibili í fyrri hálfleik og reyndust það einu mörk leiksins.
Gestirnir misstu algjörlega hausinn undir lokin þar sem þeir Djene Dakonam og Leandro Cabrera fengu að líta rautt spjald á lokamínútu leiksins.
Atletico Madrid er tveimur stigum á eftir Barcelona en síðarnefnda liðið á þó leik til góða, gegn Girona á morgun.
