Stórþingið höfðaði í fyrra skaðabótamál gegn Multiconsult og krafði fyrirtækið um 1,8 milljarða íslenskra króna í bætur. Ráðamenn norska þingsins telja ráðgjafafyrirtækið bera höfuðábyrgð á því að upphaflegar kostnaðaráætlanir hafa reynst fjarri raunveruleikanum, en málið hefur verið eitt helsta hneykslismál norskra fjölmiðla undanfarin misseri.
Stórþingið réð Muliconsult sem ráðgjafa við endurbætur á skrifstofuálmum við Prinsens gate 26. Ráðist var í framkvæmdirnar á grundvelli áætlunar Multiconsult upp á 15 milljarða íslenskra króna. Kostnaður hefur reynst ríflega tvöfalt meiri og stefnir nú í 32 milljarða íslenskra króna. Multiconsult hefur hafnað bótakröfunni en engu að síður boðist til að greiða Stórþinginu andvirði 125 milljóna íslenskra króna en málið er nú rekið fyrir norskum dómstólum.
Málið hefur stórskaðað orðspor Multiconsult og hafa tekjur þess dregist verulega saman. Fyrr í mánuðinum ákvað stjórn fyrirtækisins að reka forstjórann, Christian Nørgaard Madsen, og var hann látinn taka pokann sinn samdægurs.

Samtökin Landvernd átöldu Vegagerðina í fréttatilkynningu í gær fyrir að skoða ekki R-leiðina á grundvelli ráðgjafar Multiconsult.