Hópur sem kallar sig „Takk Bára“ hefur boðað til mótmæla gegn þingmönnum sem heyrðust hafa uppi gróf og óviðeigandi ummæli um stjórnmálakonur á hljóðupptökum á barnum Klaustri á sunnudag. Einn forsvarsmanna hópsins segist algerlega misboðið yfir framgöngu þingmannanna.
Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins sem höfðu sig mest frammi á Klaustursupptökunum svonefndu, sneru aftur á þing í vikunni eftir að hafa tekið sér launalaust leyfi eftir að ummæli þeirra ollu almennri hneykslan í lok nóvember.
„Takk Bára“ hefur nú boðað til mótmæla gegn þingmönnunum sem heyrðust á upptökunni á Austurvelli klukkan 14 á sunnudag. Hópurinn var stofnaður af vinum Báru Halldórsdóttir, sem tók ummæli þingmannanna upp, vegna aðgerða þingmannanna gegn henni í fyrra.
Í samtali við Vísi segir Sindri Viborg, einn stofnenda hópsins, að framganga þingmannanna sem hefur birst í blöðum og greinum undanfarna daga sem og endurkoma þeirra á þing misbjóði þeim. Segir hann þingmennina ætlast til þess að vera taldir fórnarlömb í málinu.
„Þetta er bara með ljótustu tuddahegðun sem maður hefur séð á síðari árum og okkur er bara algerlega misboðið,“ segir Sindri.
Ekki er gerð krafa um afsögn þingmannanna í boðunum á mótmælin á Facebook en Sindri segist gera ráð fyrir því að það sé krafa margra sem mæti á þau.
„Okkur finnst eðlilegt að þeir víki. Það er ekkert eðlilegt í framgöngu þeirra í þessu máli alveg frá því í lok nóvember,“ segir Sindri.
Boða til mótmæla gegn „Klaustursþingmönnum“ á Austurvelli

Tengdar fréttir

Óvinsælt og ólíklegt að Bergþór gegni áfram formennsku í nefnd
Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason komu óvænt aftur til starfa í gær. Í samtölum við Fréttablaðið undrast margir þingmenn þessa ákvörðun þeirra.

Segir 36 stunda „blackout“ Gunnars Braga geta bent til heilabilunar
Gunnar sagðist velta fyrir sér hvað hefði gengið á en geðlæknir hefur ritað pistil um málið.

Fullyrðingar Gunnars Braga um minnisleysi dregnar í efa
DV birtir hluta af viðtali við Gunnar Braga þar sem hann sagðist muna eftir samtölum á barnum Klaustri, þvert á það sem hann sagði í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi.