Anna Bentína setti færslu á Facebook á dögunum þar sem hún vakti athygli á því hve algengt væri orðið að gerendur í kynferðisbrotamálum notuðu svokallaðan geðveikisstimpil til að gera lítið úr brotaþola sínum.
„Því miður oftar heldur en ekki að viðkomandi hefur einhvers staðar heyrt þar sem ofbeldi er afsakað með því að hún sé bara geðveik, segir Anna Bentína. Þetta sé yfirleitt gert til þess að rýra trúverðugleika þeirra sem segja frá kynferðisofbeldi.
„Að segja að þær séu geðveikar. Að segja að þetta sé kjaftæði, að manneskjan sé ekki heil á geðsmunum og jafnvel að hún ímyndi sér þetta,“ segir Anna Bentína.

„Þetta er mjög varhugavert að spila þessu spili út því við eigum að taka mark á fólki sem er með geðraskanir það er ekkert að ljúga frekar en fólk sem er með krabbamein og hefur lent í kynferðisofbeldi og segir frá því.“
Anna Bentína segir þetta gjarnan tíðkast þegar sagt er frá kynferðisofbeldi af hálfu einhvers innan fjölskyldunnar. „Það er miklu þægilegra að einhver sé geðveikur heldur en að það sé verið að brjóta á manneskjunni á þennan hátt.Og samfélagið tekur þessu svolítið sem heilögum sannleik jafnvel,“ segir Anna Bentína.