Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að mikil umferð hafi verið um stofnæðir á borð við Reykjanesbraut, Kringlubraut og Miklubraut í morgun. Þá hafi umferð út úr hverfunum einnig gengið hægt.
„En það rættist úr því þegar fór að líða á morguninn, engin slys.“
Geta valdið slysum
Móðir barns í Háteigsskóla birti í gær mynd af bíl sem ekið var fram hjá skólanum. Athygli vakti að rúður bílsins voru þaktar snjó en ökumaðurinn hafði bersýnilega ekki skafið nógu vel áður en lagt var af stað um morguninn. Í morgun stöðvaði lögregla svo ökumann á Hringbraut og skikkaði hann til að skafa af bíl sínum, sem hann og gerði.Því er ljóst að ökumenn trassa margir að skafa í morgunsárið en lögregla birti í morgun færslu á Facebook-síðu sinni þar sem ökumenn voru beðnir um að sýna ábyrgð og skafa vel af öllum rúðum ökutækja. Ómar Smári tekur undir þetta.
„Menn hafa lagt af stað og sett bara lítið gat á framrúðuna og haldið að það væri nóg en menn þurfa að hafa skyggni allan hringinn, það er eiginlega lágmark. Annars stofna þeir sjálfum sér og öðrum í hættu og geta valdið slysum,“ segir Ómar.
„Fólk þarf að sýna tillitssemi, sýna aðgát og fara varlega.“
Fréttin hefur verið uppfærð.