Arpad Sterbik spilaði aðeins einn leik með spænska landsliðinu á HM í handbolta í Þýskalandi og Danmörku en spænska landsliðið hefur nú kallað aftur á Rodrigo Corrales inn í hópinn.
Rodrigo Corrales meiddist á föstudaginn þegar auglýsingaskilti féll á hann á æfingu spænska liðsins í Köln. Spánverjar voru skiljanlega mjög ósáttir en niðurstaðan var að IHF gaf þeim leyfi til að fá auka skiptingu á leikmönnum til að bregðast við þessum óvæntum meiðslum.
Arpad Sterbik spilaði í þriggja marka tapi á móti Frökkum og varði þá 11 skot eftir að byrjunarliðsmarkvörðurinn Gonzalo Pérez de Vargas hafði aðeins varið 1 af 15 skotum sem komu á hann.
Sjá einnig:Markvörður Spánar meiddur eftir að auglýsingaskilti féllu á hann í Köln
Rodrigo Corrales hefur nú náð sér af meiðslunum og verður því með á móti Brasilíu í dag.
Arpad Sterbik kom einmitt inn á miðju móti fyrir ári síðan og átti þá mikinn þátt í því að Spánverjar urðu Evrópumeistarar í fyrsta sinn.
Þetta var aftur á móti mun styttra gaman hjá Arpad Sterbik að þessu sinni en spænski þjálfarinn Jordi Ribera ákvað að kalla strax aftur á Rodrigo Corrales nú þegar hann er leikfær.
Rodrigo Corrales spilar með franska stórliðinu Paris Saint-Germain og hefur varið 32 prósent skota sem hafa komið á hann. Gonzalo Pérez de Vargas hefur einnig varið 32 prósent skota sinna á mótinu en hann spilar með liði Barcelona. Arpad Sterbik spilar síðan með Telekom Veszprém í Ungverjalandi.
