Nóttin var mjög róleg hjá lögreglu að því er segir í fréttaskeyti hennar til fjölmiðla í morgun. Laust fyrir klukkan 23:00 voru tveir einstaklingar handteknir í Garðabæ. Annar er grunaður um líkamsárás en hinn grunaður um að hindra störf lögreglu á vettvangi. Báðir gista nú fangageymslur.
Á svipuðum tíma var ökumaður handtekinn á Seltjarnarnesi vegna gruns um ölvunarakstur en vegfarandi hafði tilkynnt um aksturslag ökumannsins. Bifreið ökumanns reyndist jafnframt vera ótryggð og því voru skráningarmerki fjarlægð.

