Enski boltinn

Spilaði með West Ham í fimm ár en er nú á leið í steininn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Tomas í leik með Sparta Prag.
Tomas í leik með Sparta Prag. vísir/getty
Tomas Repka, fyrrum varnarmaður West Ham, hefur verið dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi eftir að hafa svikið konu í heimalandinu, Tékklandi.

Hinn 45 ára gamli varnarmaður seldi konu lúxus bíl sem hann ók um á þeim tíma en það sem konan vissi ekki var að Repka var með bílinn á leigu frá bílaleigu.

Eftir að hafa „selt“ konunni bílinn og upp komst að hann hafi ekki verið eigandinn, skrifaði Repka undir samning að hann myndi skila peningunum til eigandans og bílnum til bílaleigunnar.

Það gerði hann hins vegar ekki og var í gær dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi. Það er þó ekki alveg orðið staðfest því lögmaður Repka áfrýjaði dómnum og á því eftir að kveða upp endanlegan úrskurð.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Repka kemst í kast við lögin því á síðasta ári fékk hann sex mánaða fangelsi fyrir að bjóða kynlífsþjónustu í boði fyrrverandi eiginkonu sinnar.

Að endingu þurfti hann ekki að sitja inni en hann sinndi samfélagsþjónustu. Hann hefur svo í tvígang verið tekinn fullur undir stýri svo það má með sanni segja að Repka sé ekki alltaf fylginn laganna reglum.

Repka fór fyrst frá heimalandinu er hann samdi við Fiorentina 1998. Þar spilaði hann til 2001 áður en hann samdi til West Ham. Hann spilaði hjá West Ham í fimm ár og spilaði þar 167 leiki. Hann lagði skóna á hilluna 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×