Jón Arnór Stefánsson hélt uppteknum hætti í Síkinu í gær þegar hann fór fyrir endurkomu sigri KR á Tindastól í Domino´s deild karla í körfubolta.
Jón Arnór skoraði 34 stig í leiknum sem þriðja hæsta stigaskor hjá íslenskum leikmanni í deildinni í vetur. Aðeins Brynjar Þór Björnsson hjá Tindastól og Elvar Már Friðriksson hjá Njarðvík hafa skorað meira í einum leik.
Þessi frammistaða Jóns í Síkinu í gær þarf kannski ekki að koma á óvart því þetta er þriðji 30 stiga leikur hans í deildinni og fimmti tuttugu stiga leikur hans í deildinni í þessu húsi.
Jón Arnór hefur spilað sex deildarleiki í húsinu og skorað í þeim 26,3 stig að meðaltali.
Jón Arnór Stefánsson hefur skorað 24 stig eða meira í fimm af sex leikjum sínum í íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Jón Arnór hefur hitt úr 62,8 prósent þriggja stiga skotum sínum í þessum sex leikjum eða 27 af 43.
Það er aðeins 2017-18 tímabilið sem sker sig úr en þá var Jón Arnór lang frá sínu besta vegna meiðsla. Hann skoraði bara 10 stig í deildarleiknum á Króknum og svo „bara“ samanlagt 19 stig í tveimur leikjum í Síkinu í úrslitakeppninni.
Í tveimur bestu stigaleikjum Jóns Arnórs í Síkinu, 33 stiga leik í janúar 2017 og svo 34 stiga leiknum í gær þá hefur KR-liðið komið til baka úr slæmri stöðu. KR var mest 21 stigi undir í sigrinum í gær og mest 28 stigum undir í sigrinum fyrir tveimur árum. Þeir eru hins vegar aldrei úr leik með Jón Arnór Stefánsson innanborðs.
Hér fyrir neðan má sjá þessa mögnuðu framgöngu Jóns Arnórs á Sauðárkróki í deildarleikjum sínum þar á ferlinum.
Deildarleikir Jóns Arnórs Stefánssonar með KR-liðinu í Síkinu:
27 stig í 70-85 tapi 8. mars 2001
(hitti úr 4 af 8 þriggja stiga skotum)
24 stig í 75-72 sigri 3. mars 2002
(hitti úr 3 af 7 þriggja stiga skotum)
30 stig í 96-70 sigri 30. nóvember 2008
(hitti úr 5 af 5 þriggja stiga skotum)
33 stig í 94-87 sigri 6. janúar 2017
(hitti úr 6 af 7 þriggja stiga skotum)
10 stig í 80-105 tapi 2. mars 2018
(hitti úr 2 af 4 þriggja stiga skotum)
34 stig í 91-88 sigri 31. janúar 2019
(hitti úr 7 af 12 þriggja stiga skotum)
- Jón Arnór Stefánsson er á sínu sjöunda tímabili í úrvalsdeild karla en spilaði bara í úrslitakeppninni á því fyrsta vorið 2000.
Jón Arnór sekkur ekki í Síkinu: Þriðji 30 stiga leikurinn hans á Króknum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið


„Skil ekki af hverju við erum alltaf að koma fólki á óvart“
Íslenski boltinn

„Í dag unnum við þetta eins og fjölskylda“
Íslenski boltinn


„Ertu galinn? Þetta var frábær fótboltaleikur“
Íslenski boltinn

„Við þurfum hjálp frá Guði“
Handbolti



Reka 200 manns eftir tapið fyrir Tottenham
Enski boltinn
