Erlent

Karl og kona fórust í þyrluslysi í Noregi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá björgunaraðgerðum í nótt.
Frá björgunaraðgerðum í nótt. Mynd/Rauði krossinn
Karl og kona á fimmtugsaldri fórust í þyrluslysi við Røldalsfjall í Hörðalandi suðvesturhluta Noregs síðdegis í gær. Margir klukkutímar liðu frá því að þyrlan tók á loft og þangað til flak hennar fannst í nótt.

Norskir fjölmiðlar greina frá því að þyrlan hafi tekið á loft um klukkan 14:30 að staðartíma, eða um klukkan 13:30 að íslenskum tíma, frá Røldal í gær. Þyrlan, sem er af gerðinni Robinson 44, var á leið til Karmeyjar þegar hún brotlenti í hlíðum Røldalsfjalls.

Þá er haft eftir Edvard Middelthon, formanni aðgerðastjórnar á svæðinu, að flugið hafi ekki verið tilkynnt flugmálayfirvöldum. Middelthon segir slíkt ekki ólöglegt en það hafi þó gert það að verkum að viðbragðsaðilar voru lengur að athafna sig en ella. Þannig tók lengri tíma að staðsetja þyrluna og komast að henni. Gönguhópar auk björgunarmanna á snjósleðum og þyrlum tóku þátt í björgunaraðgerðum.

Sendu aðstandendum SMS

Flak þyrlunnar fannst loks klukkan þrjú í nótt að staðartíma, eða um klukkan tvö að íslenskum tíma, en hún hafði brotlent í brattri hlíð Røldalsfjalls. Tveir voru um borð í þyrlunni, karl og kona á fimmtugsaldri, og voru þau bæði úrskurðuð látin skömmu eftir að flakið fannst. Fjölskyldum fólksins hefur verið gert viðvart og þá hafa líkin verið flutt á sjúkrahúsið í bænum Odda.

Aðstandendur hinna látnu tilkynntu mögulegt slys til lögreglu skömmu fyrir klukkan tíu að norskum tíma í gær eftir að fólkið skilaði sér ekki á áfangastað. Norska dagblaðið VG greinir frá því að fólkið í þyrlunni hafi átt í SMS-samskiptum við skyldmenni um tíu mínútum eftir að þyrlan tók á loft og því voru björgunaraðgerðir miðaðar við svæði í grennd við Røldal.

Middelthon sagði í morgun aðspurður að ekki væri tímabært að segja nokkuð til um tildrög slyssins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×