Innlent

Steig línudans á brúnni við Jökulsárlón: „Síðasti hálfvitinn er sko ekki fæddur!“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Spurning hvort kvikmyndin Man on Wire sé innblástur þessa erlenda ferðamanns eða hann ætli að sækja um í Sirkusi Íslands.
Spurning hvort kvikmyndin Man on Wire sé innblástur þessa erlenda ferðamanns eða hann ætli að sækja um í Sirkusi Íslands. Pétur Eggerz
Ferðamaður gerði sér að leik að ganga á milli kaplanna á brúnni við Jökulsárlón á öðrum tímanum í dag. Uppi er fótur og fit í umræðum um málið í Baklandi ferðaþjónustunnar þar sem áhugafólk um málefni ferðamanna ræðir málið.

Pétur Eggerz leiðsögumaður náði göngu mannsins, eða broti af göngunni, á upptöku. Hann segir manninn hafa stokkið upp í bíl hjá fólki og ekið í burtu. Aðrir hafi hringt í lögreglu og gefið upp bílnúmerið.

Pétur, sem var með hóp ferðamanna með sér, segir í samtali við Vísi að ferðamennirnir sem voru í rútunni hans hafi verið undrandi.

„Það voru allir forviða. Hann er náttúrulega dauður ef hann dettur þarna út í.“

Meðlimir í Baklandi ferðaþjónustunnar sem hafa tjáð sig um málið eru yfir sig hneykslaðir. Spyrja þeir í háðskum tón hvers vegna ekki séu skilti sem banni athæfi sem þetta.

„Þessi hegðun mannsins er alfarið landvörðum að kenna!“ segir Stefán Hannesson og uppsker hlátur.

„Síðasti hálvitinn er sko ekki fæddur!“ segir Sigga Tóta Gabríelsdóttir.

Vísir greindi fyrr í dag frá því að eldri kona hefði flotið á haf út við Jökulsárlón á þriðjudaginn en sloppið með skrekkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×