Eigendur pókerklúbbsins 4 Kings Casino & Card Club blása til pókermóts til að safna pening fyrir aðstandendur Jóns Þrastar Jónssonar sem enn er saknað þegar rúmar tvær vikur eru liðnar síðan síðast sást til hans.
Í texta sem fylgir boði á viðburðinn segja eigendur að þeim finnist hvarfið vera hræðilega sorglegt og skelfilegt og það sé þeirra skylda að leggja hönd á plóg.
Markmiðið með pókermótinu er að safna pening fyrir fjölskyldu og vini Jóns til að þau geti staðið straum af fjárútlátum í „kostnaðarsamri höfuðborg,“ segir í lýsingunni um Dyflinni.
Helmingur skráningargjaldsins mun renna óskert til fjölskyldunnar og þá verður hægt að kaupa auka spilapeninga á tíu evrur sem einnig renna til fjölskyldunnar.
Mótið hefst í kvöld klukkan sjö.

