Vátryggingafélag Íslands (VÍS) og Hitaveitufélag Hvalfjarðar voru í vikunni dæmd til að greiða Kirkjumálasjóði tæpar 2,4 milljónir króna í bætur vegna tjóns sem af hlaust vegna leka frá hitaveitulögn í prestsbústaðnum að Saurbæ í Hvalfjarðarsveit.
Lekinn kom í ljós í febrúar 2014 og voru miklar skemmdir á kjallara hússins.
Upphaflega fór kirkjan fram á ríflega 23 milljóna króna bætur en þeim kröfum var vísað frá dómi árið 2016 vegna vanreifunar. Nýtt mál var höfðað og hljóðaði krafan þá upp á sjö milljóna bætur.
Í málinu lá fyrir undirmat, sem mat tjónið 2,4 milljónir, auk yfirmats sem mat það 5,6 milljónir. Krafan var í samræmi við yfirmatið auk kostnaðar sem hlaust af útleigu nýs húsnæðis fyrir prestinn meðan á viðgerð stóð.
Dómurinn hafnaði yfirmatsgerðinni en féllst á undirmatið. Kröfu um bætur vegna afleidds tjóns var hafnað þar sem ekki þótti sannað að húsið hefði verið óíbúðarhæft þótt viðgerð stæði yfir í kjallara þess. Hluti málskostnaðar, 2,2 milljónir, var felldur á VÍS og hitaveituna.
