Juventus greindi frá því í gær að miðjumaðurinn Sami Khedira væri með óreglulegan hjartslátt og þyrfti að taka sér frí vegna veikindanna.
Hann gat því ekki spilað með félögum sínum gegn Atletico í Meistaradeildinni í gær. Hann eyddi deginum í ítarlegum rannsóknum.
„Allt gekk frábærlega og ég kem til baka eftir smá hvíld. Þakka fyrir allar góðu kveðjurnar,“ skrifaði Khedira á Twitter.
Juventus gaf svo frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að Khedira verði að hvíla í mánuð.

