Lífið

Ólafur Ragnar prúð­búinn í ind­versku stjörnu­brúð­kaupi á­samt Blair og Ban

Andri Eysteinsson skrifar
Ólafur Ragnar, Tony Blair og Ban Ki-Moon á góðri stundu.
Ólafur Ragnar, Tony Blair og Ban Ki-Moon á góðri stundu. Twitter/ORGrimsson
Fyrrverandi forseti lýðveldsisins, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur farið um víðan völl eftir að forsetatíð hans lauk. Ólafur hefur unnið að málefnum tengdum norðurslóðum og hefur ferðast víða ásamt eiginkonu sinni Dorrit Moussaieff.

Hjónin voru í gær stödd í Vatíkaninu og hlýddu þar á tölu Frans páfa, þaðan flugu þau beint til Mumbai í Indlandi þar sem þeim hafði verið boðið í brúðkaup.



Forsetahjónin fyrrverandi heiðruðu þá brúðhjónin Akash Ambani og Shloka Mehta með nærveru sinni ásamt fjölda annarra fyrrum stjórnmálamanna og fólks úr viðskiptalífinu.

Af myndum sem Ólafur Ragnar hefur birt á Twitter síðu sinni má segja að brúðkaupið sé hið glæsilegasta og engu til sparað.



Það kemur kannski ekki á óvart þegar litið er til brúðhjónanna en brúðguminn, Akash Ambani er elsti sonur viðskiptajöfursins Mukesh Ambani sem er ríkasti maður Indlands, Asíu og í raun utan Norður-Ameríku og Evrópu. Ambani er efnaverkfræðingur að mennt og safnaði auð sínum í eldsneytisgeiranum.

Brúðurin er einnig af auðmannsættum komin en Shloka Mehta er dóttir viðskiptamannsins Russell Mehta sem stýrir Indlands-hluta demantafyritækisins Rosy Blue.

Ólafur hefur birt fjölda mynda frá brúðkaupinu þar á meðal kostulega mynd af honum sjálfum, Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands og Ban Ki-Moon fyrrverandi aðalritara Sameinuðu Þjóðanna klædda í indversk klæði.

Við færsluna skrifaði Ólafur „Þrír á sófa á meðan fylgdarlið brúðarinnar dansar við hátíðlega indverska brúðkaupstónlist. Í órafjarlægð frá fyrri störfum þeirra sem aðalritari Sameinuðu þjóðanna, forsætisráðherra Bretlands og Forseti Íslands,“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×