Fjórir einstaklingar eru í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir að skotum var hleypt af í Vogahverfi í austurborginni snemma í morgun. Tilkynning um skothvelli barst klukkan 06:20.
Þegar lögregla kom á vettvang voru skothvellirnir þagnaðir en tveir einstaklingar sem voru í íbúð í húsinu voru handteknir sem og tveir aðrir sem staddir voru utandyra. Þá lagði lögregla hald á skotvopn sem fannst í húsinu auk nokkurra skothylkja sem fundust á vettvangi.
Byssukúlur höfnuðu í tveimur bifreiðum sem stóðu fyrir utan húsið en ljóst er að mikil hætta var á ferðum og mildi að enginn hafi slasast.
Rannsókn málsins er á frumstigi.
Fjórir handteknir eftir að skotum var hleypt af í Vogahverfi
Sylvía Hall skrifar
