Fótbolti

Real Madrid búið að tala við Jose Mourinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Getty/Jasper Juinen
Jose Mourinho er efstur á óskalista Real Madrid sem næsti knattspyrnustjóri liðsins ef marka má orð fyrrum forseti spænska félagsins.

Ramon Calderon, fyrrum forseti Real Madrid, segir að félagið sé þegar búið að hafa samband við Jose Mourinho.

Framtíð Santiago Solari sem knattspyrnustjóra Real Madrid er ráðin eftir tvö töp í röð á móti Barcelona og neyðarlegt tap á móti Ajax í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Á einni viku spilaði Real Madrid sig út úr þremur keppnum og liðið hefur nánast að engu að keppa síðustu þrjá mánuði tímabilsins.

Jose Mourinho stýrði Real Madrid liðinu frá 2010 til 2013 en fór þaðan til Chelsea. Mourinho er enn atvinnulaus eftir að hafa verið rekinn frá Manchester United í desember.





Mourinho gæti nú snúið aftur til Real Madrid eins og hann snéri aftur til Chelsea. Það liðu sex ár á milli stjóratíða hans hjá Chelsea en nú eru einmitt liðin sex ár síðan hann var síðast hjá Real Madrid.

„Ég er ekki neinum vafa um að hann sé fyrsti kostur hjá félaginu. Þeir hringdu í hann í síðustu viku. Mourinho var enn stjóri Manchester United þegar Zinedine Zidane fór síðasta vor og þá var ekki rétti tíminn fyrir hann að snúa aftur. Sá tími er kannski kominn núna þar sem hann er laus allra mála,“ sagði Ramon Calderon við Sky Sports.

Ramon Calderon var spurður út í aðra mögulega stjóra. „Kannski Mauricio Pochettino. Þeir eru að tala um hann. Það verða örugglega margir orðaðir við félagið á næstu dögum því stuðningsmenn Real Madrid sætta sig ekki við þetta,“ sagði Calderon. Eitthvað þarf að gerast á Santiago Bernabéu.





„Við erum búnir að fá þrjá eða fjóra mánuði af væli, harmakveini og eftirsjá vegna þess hvernig menn undirbjuggu tímabilið,“ sagði Calderon.

Eftir þetta hörmungartímabil þá þarf Florentino Perez, forseti Real Madrid, vissulega að finna alvöru mann til að lægja öldurnar meðal óánægðra stuðningsmanna félagsins. Stuðningsmenn Real Madrid voru að kyrja nafn Jose Mourinho í gær og hann yrði því örugglega vinsæl ráðning.

„Það eru miklar líkur á því að Jose Mourinho verði á Real Madrid bekknum á næsta tímabili,“ sagði Calderon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×