Handbolti

Seinni bylgjan: Í þessum leik var hann bara út um allt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Örn Kristjánsson kom með beinum hætti að þrettán mörkum Eyjaliðsins á Hlíðarenda.
Kristján Örn Kristjánsson kom með beinum hætti að þrettán mörkum Eyjaliðsins á Hlíðarenda. Vísir/Bára
Eyjamenn unnu frábæran sigur á Íslandsmeistaraefnunum á Hlíðarenda og fengu líka mikið hrós í umfjöllun Seinni bylgjunnar um leikinn.

Erlingur Birgir Richardsson og Kristinn Guðmundsson þjálfa ÍBV-liðið saman en oftar ekki er það Kristinn sem tekur að sér fjölmiðlaviðtölin. Erlingur var hins vegar mættur í viðtal eftir sigurinn á Valsmönnum og fékk smá skot á sig hjá mönnum í Seinni bylgjunni.

„Það má ekki gera Kidda það að hans andlit stimplist alltaf á tapleiki því þá verður erfitt fyrir hann meðal Eyjafólksins. Það minnar það þá alltaf á tapleiki þegar það sér andlitið hans. Svo kemur Erlingur alltaf þegar það er sigurleikur,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson í léttum tón.

Kristján Örn Kristjánsson er á sínu fyrsta tímabili í Eyjum og átti einn sinn allra besta leik í sigrinum á Val. Hann skoraði átta mörk og átti fimm stoðsendingar í leiknum sem skilaði honum 8,4 í einkunn hjá HB Statz.

„Kristján Örn Kristjánsson, Donni. Hann var þetta Fjölnislið í fyrra en hefur átt frekar erfitt uppdráttar í Eyjum í vetur. Hann hefur átti leiki hér og leiki þar en þetta var eins góður Donni og hann verður,“ sagði Tómas Þór Þórðarson.

„Þetta var besta frammistaða hans í vetur eða eins og maður segir: Fjölnisframmistaða,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson.

„Hann er samt að gera allt annað en með Fjölni þegar enginn gat skotið nema hann. Það tók tíma fyrir hann að komast inn í þetta. Hann er með geðveikt stökk og geðveikt skot. Það hefur vantað eitthvað sjálfstraust í hann en í þessum leik var hann bara út um allt,“ sagði Gunnar Berg Viktorsson.

Það má finna alla umfjöllun Seinni bylgjunnar um Kristján Örn Kristjánsson og Eyjaliðið hér fyrir neðan.



Klippa: Seinni bylgjan: Frammistaða Eyjamanna í sigrinum á Val



Fleiri fréttir

Sjá meira


×