Innlent

Svipað margir með og á móti áframhaldandi hvalveiðum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Vísir/Vilhelm
Lítill munur er á fjölda þeirra sem segjast hlynntir áframhaldandi veiðum á langreyði og þeirra sem segjast andvígir samkvæmt nýrri könnun. Karlar eru líklegri en konur til að vera hlynntir áframhaldandi veiðum. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði reglugerð í febrúar sem heimilar áframhaldandi veiðar á langreyði og hrefnu til næstu fimm ára.

Gallup vann könnun fyrir náttúruverndarsamtökin Jarðarvini í febrúar og mars þar sem spurt var hvort þátttakendur væru andvígir eða hlynntir því að ráðherra gæfi út leyfi til áframhaldandi veiða á langreyði. 37,8% sögðust andvíg, 38% sögðust hlynnt og 24,2% sögðust hvorki hlynnt né andvíg. Samtökin létu gera sambærilega könnun í október og nóvember á síðasta ári en þá sögðust 35,7% vera andvíg, 35,1% hlynnt og 29,2% hvorki né.

Í maí í fyrra gerði Gallup aðra könnun fyrir Jarðarvini þar sem spurt var hvort þátttakendur væru hlynntir eða andvígir veiðum á langreyðum sem hefjast ættu um sumarið. Þá sögðust tæp 40% vera því hlynntir, rétt rúm 30% andvíg og tæp 30% sögðust hvorki hlynnt né andvíg.

Samkvæmt niðurstöðum nýjustu könnunarinnar eru karlar líklegri en konur til að vera hlynntir áframhaldandi veiðum á langreyði. 47% karla og 28% kvenna segjast hlynnt, en 36% karla segjast andvígir og 39% kvenna. 17% karla segjast hvorki hlynntir né andvígir og 33% kvenna. Þá er ungt fólk líklegra til að vera andvígt áframhaldandi veiðum. Í aldurshópnum 18 til 24 ára segjast 22% vera hlynnt, 38% andvíg en 40% hvorki né.


Tengdar fréttir

Umhverfisráðherra ósammála ákvörðun um áframhaldandi hvalveiðar

Umhverfisráðherra segist afar ósammála ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að gefa út áframhaldandi hvalveiðikvóta og þingmaður Vinstri grænna segist efast um að veiðarnar séu sjálfbærar. Fleiri Íslendingar eru andvígir hvalveiðum en þeir sem eru hlynntir samkvæmt nýlegri könnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×