Í september verða liðin sjö ár síðan ungur og gríðarlega spennandi bardagakappi frá Íslandi barðist í fyrsta sinn fyrir UFC. Gunnar hengdi þá DaMarques Johnson í Nottingham og var kominn á kortið.
Hann fylgdi þeim sigri síðan eftir með þremur sigrum og var kominn á radarinn hjá kóngunum hjá UFC. Þeir voru gríðarlega spenntir og til í að veðja á Gunnar. Þeim fannst allt spennandi við hann. Skiljanlega.

Það var þann 4. október árið 2014 og andstæðingurinn var hinn reyndi Rick Story. Gunnar var því miður ekki til í þann reynslubolta og tapaði sínum fyrsta bardaga. Hann lærði þó mikið af honum og viðurkenndi að hafa verið orðinn of góður með sig og ekki mætt nægilega vel undirbúinn.
Þetta tap hægði á frama hans enda auðveldara að auglýsa ósigraða menn. Fyrsta tapið var sárt.

Metnaðarfullur Gunnar bað næst um brasilíska glímuskrímslið Demian Maia. Það hafði enginn átt roð í Maia í gólfinu en Gunnar ætlaði að sýna að það væri nýr kóngur í gólfinu. Maia var alls ekki á því að gefa eftir krúnuna og hreinlega lék sér að okkar manni í þrjár lotur.
Brassinn var allt of stór biti á þessum tímapunkti en Gunnar vissi samt vel að sigur á honum hefði opnað dyrnar í aðalgaurana. Aftur neyddist hann til þess að taka skref til baka.

Alls konar utanaðkomandi aðstæður, flestar óheppilegar fyrir Gunnar, gerðu það að verkum að hann var í vandræðum með að fá bardaga og það gegn mönnunum sem hann vildi helst berjast við. Þetta var erfiður tími.
Í mars árið 2017 sættist hann á að berjast við Alan Jouban, til þess að fá eitthvað að gera, og hann sýndi allar sínar bestu hliðar gegn Jouban og vann. Annan bardagann í röð fékk hann verðlaun fyrir bestu frammistöðu kvöldsins.

Bardaginn var kærður en menn skelltu skollaeyrum við málflutningi Gunnars þrátt fyrir sláandi sönnunargögn. Þetta tap stóð og margir byrjuðu að efast um að hann hefði það sem þurfti til að komast í hóp þeirra allra bestu. Hann var orðinn frétt gærdagsins. Þetta var eins svekkjandi og það gat orðið.
Svo hvarf Gunnar í langan tíma og berst ekki aftur fyrr en í desember á síðasta ári. Þá héldu margir sérfræðingarnir að hann yrði lítið annað en fallbyssufóður fyrir brasilíska kúrekann, Alex Oliveira. Annað kom heldur betur á daginn og Gunnar sýndi að hann er enn að bæta sig sem bardagamaður.

Gunnar er orðinn þrítugur. Hann er reynslumikill og er enn að bæta sig. Fyrir bardagann í desember tók hann líkamlega þáttinn sérstaklega í gegn og hafði aldrei litið betur út. Það er enn rými fyrir bætingar og með þessa reynslu og hæfileika er hann hættulegt dýr.
Sigur gegn Edwards neglir honum upp listann og örugglega á topp tíu. Hlutirnir virðast loksins vera að falla fyrir okkar mann sem stundum hefur verið óheppinn með atburðarrásina. Hann hefur aldrei verið flottari, er að fá bardaga með stuttu millibili og það gegn alvöru manni sem einnig ætlar sér langt. Nú þarf að grípa gæsina.
Ef Gunnar nýtir tækifærið þá gæti þetta orðið árið þar sem hann springur loksins almennilega út og sýnir heiminum hversu ofboðslega öflugur hann sé. Ég er orðinn fáranlega spenntur fyrir þessum bardaga og hef tröllatrú á okkar manni sem fyrr.
Gunnar Nelson berst við Bretann Leon Edwards í London næstkomandi laugardag. Bardaginn er í beinni á Stöð 2 Sport. Vísir er í London og mun fylgjast ítarlega með öllu í aðdraganda bardagans.