Samtökin halda því fram að fái Hatari að koma fram, sé næsta víst að þeir mun nýta sér dagskrárvald sitt með því að mótmæla Ísraelsríki. Í umfjöllun ísraelska miðilsins Ynet News um mál sveitarinnar eru meðlimir Hatara sagðir hafa gagnrýnt Ríkisútvarpið fyrir að hafa ekki sniðgengið keppnina í ár vegna þess hvar hún er haldin.
Þá eru Hataramenn sagðir hafa opinberað fyrirætlanir sínar um að notfæra sér sviðsljósið sem fyglir Eurovision með því að lýsa yfir samstöðu sinni með Palestínu og mótmæla mannréttindabrotum Ísraela á þeim.
Málið mögulega tekið fyrir af innanríkisráðherranum
Nitsana Darshan-Leitner, formaður Shurat HaDin, segir samtökin hafa fengið veður af stuðningsyfirlýsingu Hatara við sniðgöngu á keppninni.„Síðasta sumar skrifaði hljómsveitin undir ákall um sniðgöngu Íslands á Eurovision. Eftir að hafa sigrað lýsti Hatari því yfir að sveitin myndi mótmæla Ísrael á sviði keppninnar, þrátt fyrir að það brjóti í bága við reglur keppninnar.“

Talsmaður innanríkisráðherra Ísraels hefur sagt að beiðni samtakanna um að meina Hatara að koma inn í landið verði tekin fyrir þegar formleg beiðni berst innanríkisráðuneytinu. Hún verði síðan tekin fyrir í samvinnu við viðeigandi yfirvöld.
Umdeild samtök
Shurat HaDin lýsa sjálfum sér sem mannréttindasamtökum sem ætlað er að tala máli fórnarlamba hryðjuverkaárása, gyðinga og Ísraela.Starf Shurat HaDin gengur að miklu leyti út á að notfæra sér réttarkerfið til þess að sækja til saka þá sem samtökin telja styðja málstað hryðjuverkamanna, eða aðra sem samtökin sjá sem óvini gyðinga og Ísraelsmanna.
Margir hafa sakað samtökin um að stunda beinlínis „lagalegan skæruhernað,“ þar sem þeir sem hugnast ekki samtökunum eru dregnir fyrir dómstóla og mannorð þeirra skaddað í nafni þess að „sigrast“ á þeim sem ekki þóknast Shurat HaDin.