Innlent

Ekkert lát á jarð­skjálfta­hrinunni fyrir norðan

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ekkert lát er á hrinunni fyrir norðan.
Ekkert lát er á hrinunni fyrir norðan. veðurstofa íslands
Tæplega 340 skjálftar hafa mælst í Öxarfirði frá miðnætti á sjálfvirkum jarðskjálftamælum Veðurstofunnar. Þetta segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi.

Einn skjálfti varð í morgun klukkan 05:48 sem var 3,8 að stærð og Einar segir að óyfirfarnar frumniðurstöður sýni að tveir skjálftar yfir tveimur hafi verið í nótt. Það sé þó líklegt að þeir séu mun fleiri.

Hrinan hefur staðið yfir síðan á laugardag og hún heldur áfram. Ekki er að draga úr henni og er hún mjög svipuð og í gær að sögn Einars.

Aðspurður hvað valdi skjálftanum segir Einar að talið sé að þetta sé færsla á brotabeltinu um Grímseyjarbeltið.

Stærsti skjálfti hrinunnar mældist í gærkvöldi og var hann 4,2 að stærð.

„Hálfri mínútu síðar varð annar skjálfti 3,3 að stærð. Rúmri klukkustund síðar eða kl. 21:47 og 21:49 mældust skjálftar af stærð 3,3 og 3,2.Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að íbúar á Kópaskeri og í Kelduhverfi hafi fundið stærstu skjálftana. Fjöldi minni eftirskjálfta mælist nú í kjölfar þessara skjálfta,“ sagði í tilkynningu Veðurstofunnar í gærkvöldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×