Frá því Vaðlaheiðargöng voru opnuð hefur hann nýtt göngin enda margt að sækja til Akureyrar. Nú er svo komið að hann hefur tvisvar keypt 100 ferðir í göngin og eru þær ferðir búnar. „Við reynum eftir fremsta megni að fara Víkurskarðið aðra leiðina þar sem þetta er mikill kostnaður,“ segir Guðbergur.

Hilmar Gunnlaugsson, formaður stjórnar Vaðlaheiðarganga, segir 700 krónur á hverja ferð ekki hátt verð og að fyrirtækið verði að geta greitt af lánum. „Við sjáum á umferðartölum að við erum að fá í gegnum göngin þá umferð sem fór um Víkurskarðið í fyrra en auðvitað er of snemmt að fullyrða það að það haldi áfram,“ segir Hilmar.
Göngin voru opnuð rétt fyrir síðustu jól og gjaldtaka hófst í byrjun árs. Mikið hefur verið rætt um að gjald fyrir þyngstu bifreiðar sé of hátt og fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa gagnrýnt hátt verð.
Vaðlaheiðargöng reyndust miklu dýrari en ráð var fyrir gert og því þarf að greiða niður hærra lán með veggjöldum en vonir stóðu til.