Innlent

Beina því til lækna að taka ekki þátt í vinnu Land­spítalans vegna jafn­launa­vottunar

Birgir Olgeirsson skrifar
Læknafélagið vill að annað jafnlaunakerfi sé tekið upp.
Læknafélagið vill að annað jafnlaunakerfi sé tekið upp. Vísir
Stjórn Læknafélags Íslands beinir því til lækna á Landspítalanum að taka ekki þátt í þeirri vinnu sem þar er í gangi vegna jafnlaunavottunar fyrr en annað jafnlaunakerfi hefur verið tekið upp. Þetta kemur fram í ályktun frá stjórninni.

Þar segir að Læknafélagið og aðildarfélög þess, Félag sjúkrahúslækna og Félag almennra lækna, hafi ítrekað bent yfirstjórn Landspítalans á að starfsmatskerfið byggi á breskri fyrirmynd, en læknar þar í landi séu ekki meðal þeirra starfshópa sem kerfið nær til.

„Aðlögun Landspítala á kerfinu er óraunhæf og endurspeglar hvorki þær umfangsmiklu frumkröfur sem gerðar eru til læknastarfsins né nær það til eðlis og inntaks þess. Meðan Landspítali hefur ekki tekið til gagngerrar endurskoðunar þá leið sem valin var til jafnlaunavottunar telur stjórn  ekki koma til greina að læknar taki þátt í vinnu við þróun þess,“ segir í ályktun stjórnarinnar.

Jafnlaunavottun var lögfest í júní árið 2017 en til að fá slíka vottun þurfa fyrirtæki að útbúa jafnlaunakerfi sem stenst kröfu jafnlaunastaðals. Er aðalmarkmiðið með innleiðingu jafnlaunastaðalsins að tryggja launajafnfrétti. Er síðan notast við jafnlaunakerfi til að setja laun innan fyrirtækja og stofnana, bæta stjórnun og auka gagnsæi jafnlaunamála. Hafa fyrirtæki nokkuð frjálsar hendur við að hanna jafnlaunakerfi en jafnlaunavottun þurfa þau að fá samkvæmt lögum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×