Erlent

Hyggja á kapp­ræður á Ólympíu­vellinum í Kænu­garði

Atli Ísleifsson skrifar
Volodymyr Zelensky er 41 árs gamall.
Volodymyr Zelensky er 41 árs gamall. Getty
Petró Pórósjenkó Úkraínuforseti hefur samþykkt að taka þátt í kappræðum við andstæðing sinn í síðari umferð forsetakosninganna, grínistann Volodymyr Zelensky. Til stendur að kappræðurnar fari fram á sjálfum Ólympíuleikvanginum í Kænugarði.

Breska ríkisútvarpið segir frá því að enn hafi ekki verið gefin út dagsetning hvenær kappræðurnar fari fram. Þar segir ennfremur að forsetinn Pórósjenkó hafi einnig samþykkt að gangast undir fíkniefna- og áfengispróf á morgun, föstudag.

Zelensky fékk rúm 30 prósent atkvæða í fyrri umferð forsetakosninganna og Pórósjenkó um sextán prósent. Þar sem enginn hlaut hreinan meirihluta atkvæða í fyrri umferðinni er kosið milli þeirra tveggja sem hlutu flest atkvæði í fyrri umferðinni, það er Zelensky og Pórósjenkó.

Völlurinn tekur um 70 þúsund manns í sæti.Wikipedia commons
Zelensky hefur ennfremur kallað eftir því að forsætisráðherrann fyrrverandi Júlía Tymósjenkó, sem sjálf var þriðja í forsetakosningunum, stýri kappræðunum. Hvorki Pórósjenkó né Tymósjenkó hafa brugðist við þeirri tillögu Zelensky

Zelensky hefur litla pólitíska reynslu, en athygli hefur vakið að hann hefur farið með hlutverk Úkraínuforseta í vinsælli gamanþáttaröð þar í landi síðustu ár. Er söguþráðurinn á þá leið að venjulegur borgari sigrar forsetakosningar með því að heita því að berjast gegn spillingu í landinu. Má því segja að lífið hermi eftir listinni í þessu tilviki þar sem barátta gegn spillingu hefur verið helsta kosningaloforð Zelensky.


Tengdar fréttir

Grínistinn efstur í Úkraínu

Útgönguspár bentu til þess að grínistinn Volodymyr Zelenskiy hefði fengið flest atkvæði í fyrri umferð úkraínsku forsetakosninganna sem fram fór í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×