Körfubolti

Jón Guðmunds: Þurfum að drullast til að mæta til leiks

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón hafði engan húmor fyrir spilamennsku Keflvíkinga í fyrri hálfleik.
Jón hafði engan húmor fyrir spilamennsku Keflvíkinga í fyrri hálfleik. vísir/bára
Jón Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, var vægast sagt ósáttur með frammistöðu síns liðs í fyrri hálfleik gegn Stjörnunni í kvöld. Keflavík var 19 stigum undir í hálfleik, 24-43, og þrátt fyrir góða viðleitni tókst liðinu ekki að koma til baka. Stjarnan vann á endanum átta stiga sigur, 70-78.

„Úrslitakeppnin er byrjuð og við mættum ekki til leiks. Það er algjörlega galið. Holan sem við vorum í hálfleik reyndist of djúp,“ sagði Jón í samtali við Vísi eftir leik.

„Það vantaði baráttu, kraft og áræðni. Við áttuðum okkur ekki á því úrslitakeppnin væri byrjuð. Það er bara þannig.“

Keflavík spilaði mun betur í seinni hálfleik en í þeim fyrri, enda varla annað hægt.

„Við breyttum ekki neinu í hálfleik. Við töluðum bara um að við þyrftum að berjast meira. Við gerðum það en þær settu niður risastór skot undir lokin. Við gerðum vel með því að koma til baka en það var ekki nóg,“ sagði Jón.

„Við erum 1-0 undir í einvíginu og þurfum að gjöra svo vel og drullast til að mæta til leiks. Það er ekki bara hægt að spila bara í 20 mínútur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×