Innlent

Mikið rennsli í ám landsins

Andri Eysteinsson og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa

Vegna mikils vatnselgs og leysingar varð að loka við Dettifoss í morgun um óákveðinn tíma og er því Dettifossvegur lokaður þar til talið verður óhætt að hleypa fólki inn á svæðið. Þá er mjög mikið rennsli í flestum ám á landinu vegna hlýinda og leysinga.

Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir mikilvægt að ferðamenn sýni aðgát í nágrenni við þær.

Hlýtt hefur verið á landinu síðustu daga og mikil rigning á sunnan og vestanverður landinu. Í morgun sendi tilkynnti Vegagerðin að búið væri að loka við Dettifoss.

Kristín Elísa Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni býst við að lokunin verði í gildi næstu daga.

„Það eru búnar að vera staðbundnar leysingar á landinu en það er búið að vera frekar hlýtt. Vegna hnjúkaþeys og hlýinda á norðanverðu hálendinu og út af snjóbráð þá er búið að vera eitthvað um staðbundin flóð á svæðinu í kringum Dettifoss,“ sagði Kristín Elísa.

Mikið rennsli sé í ám víða á landinu.

„Á Suður- og suðausturlandi svo það má búast við vatnavöxtum og snjóbráð á því svæði. Það er talsvert vatn í ám og lækjum á svæðinu og það má búast við því áfram næst daga. Þetta eru bara vorleysingar,“ sagði Kristín.

Kristín segir alltaf  ástæðu til að fara varlega kringum ár.

„Það þarf alltaf að fara með gát nálægt stórum ám. Vera ekkert að fara sér að voða,“ sagði Kristín Elísa Guðmundsdóttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×