Aðeins hafa verið haldin ein mótmæli við íslenskt sendiráð í kjölfar ákvörðunar Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra um að leyfa áframhaldandi veiðar á langreyði og hrefnu til ársins 2023. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Jarðarvina. Samtökin sendu fyrirspurn þess efnis á sendiskrifstofur Íslands í London, París, Berlín og Washington DC.
Jarðarvinir, ásamt sjö öðrum félagasamtökum, mótmæltu ákvörðuninni á Austurvelli í lok mars.
Fram kemur í svari utanríkisráðuneytisins að ekki hafi verið boðað til mótmæla við sendiráðin fjögur frá því sjávarútvegsráðherra undirritaði reglugerðina í febrúar síðastliðnum. Ráðuneytið veit af einum mótmælum. „Þann 26. mars voru mótmæli við íslenska sendiráðið í Stokkhólmi þar sem mættu fjórir mótmælendur.“
Sendiráðunum hafa borist samtals um 40 skeyti og símtöl vegna málsins, annars hafi ráðuneytið ekki orðið vart við gagnrýni eða mótmæli vegna hvalveiða.
