Umfjöllun og viðtöl: Valur - Fram 25-21 | Þrennan í húsi hjá Val

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Valur er meistari.
Valur er meistari. vísir/daníel
Valur er Íslandsmeistari í handbolta kvenna eftir fjögurra marka sigur á Fram á Hlíðarenda í dag, 25-21. Valur vann úrslita einvígið 3-0, þriðji og síðasti titillinn er nú kominn á Hlíðarenda eftir fullkomið tímabil Vals

Valur mætti einbeittari til leiks og var fljótlega komið í fjögurra marka forystu, 6-2. Það var mikil barátta í vörninni hjá Val og spiluðu þær vel í fyrri hálfleik. 

Eftir fyrsta stundarfjórðunginn hafði Fram komið leiknum niður í tvö mörk, 8-6. Gestirnir komu sér í fín færi en þær voru ekki að nýta þau á meðan keyrðu Valskonur hratt á þær og refsuðu ítrekað. Valur náði góðum kafla undir lok fyrri hálfleiks og endaði hann með sex marka forystu, 15-9.

Það var fátt sem benti til þess að endurkoma Fram væri í spilunum. Þær komu þó töluvert sterkari til leiks í síðari hálfleik og jöfnuðu leikinn í stöðunni 16-16.

Valur skoraði sitt annað mark þegar tæpur stundarfjórðungur var liðin af seinni hálfleiknum en þær lentu í miklum vandræðum með 5+1 vörn Framara. 

Leikurinn var jafn þar til á lokakaflanum, Valur var sterkari þegar á reyndi og vann öruggan sigur, 25-21.

Úr leiknum í dag.vísir/daníel
Af hverju vann Valur? 

Þær höfðu betur á lokakaflanum. Fram hafði snúið leiknum við og var stemningin þeirra megnið af síðari hálfleik. Valur sýndi karakter með því að vinna loka mínúturnar en Íris Björk Símonardóttir varði t.a.m tvö víti á síðustu mínútunum sem reyndist ansi mikilvægt. Valur vel að sigrinum komið og sýndu í dag að þær eru allra besta lið landsins

Hverjar stóðu upp úr?

Íris Björk Símonardóttir var frábær allt einvígið og fékk að leik loknum verðlaun fyrir að vera mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar. Hún varði vel í dag og var með yfir 40% markvörslu. 

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir var mögnuð í vörn og sókn eins og alltaf og þá var Morgan Marie Þorkelsdóttir frábær á lokakaflanum í dag. 

Karen Knútsdóttir var að stórum hluta ástæðan fyrir viðsnúningi Fram í dag, bar liðið á herðum sér sóknarlega en það dugði ekki til. Hún var markahæst ásamt Ragnheiði Júlíusdóttir, með 7 mörk. 

Hvað gekk illa? 

Fram gekk illa sóknarlega í fyrri hálfleik, þær komu sér í fín færi en voru ekki að nýta þau. Það var síðan 15 mínútna kafli í síðari hálfleik þar sem ekkert gekk upp hjá Val, en sýndu síðan karakter að koma til baka aftur.  

Eftir frábært tímabil er Valur þrefaldur meistari, deildarmeistari, bikarmeistari og nú Íslandsmeistari. Fullkomið tímabil og eru þær vel að þessu komnar.

Mikil gleði í liði Vals í kvöld.vísir/daníel
Stefán: Ég hef alltaf rétt fyrir mér

„Ég óska Val og Gústa til hamingju með þetta, frábær sigur og virkilega verðskuldað“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram

„Það er vonbrigði að tapa, við ætluðum okkur að vinna þetta mót“

Stefán hefur margoft talað um það á tímabilinu að Valur sé með langbesta lið deildarinnar

„Ég hef alltaf rétt fyrir mér“ sagði Stefán aðspurður útí þær staðhæfingar

„Við byrjum leikinn vel en svo kemur mjög slakur kafli hjá okkur og staðan 15-9 í hálfleik. Við breyttum vörninni í seinni hálfleik og jöfnum leikinn í 16-16. Fengum svo dauðafæri að komast yfir en klikkum á því. Það var gott að komast inní leikinn en Valur kláraði þetta í dag.“ 

Stefán gengur svo langt að segja að Íris Björk sé besti markvörður bæði kvenna og karla í dag. Hann segir hana hafa staðið uppúr í þessu einvígi en hrósar einnig varnarjaxlinum, Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttir. 

„Íris er frábær markmaður, besti markmaður í karla og kvenna held ég, hún og Danni kannski“ sagði Stefán og segir þar að markverðir Vals séu þeir bestu á landinu, Íris Björk Símonardóttir og Daníel Freyr Andrésson. 

Stefán segir þetta tímabil vera bæði vonbrigði og ekki, hann segir að það sé ekki slæmt að lenda í öðru sæti en að hann vilji að sjálfsögðu alltaf vinna. 

„Þetta er auðvitað vonbrigði því við viljum alltaf vinna en líka ánægður að lenda í öðru sæti á mótinu. Okkur hefur gengið ágætlega hingað til og við höfum unnið þetta tvisvar. Eitt veit ég á langri ævi, þú getur ekki unnið alltaf“ sagði Stefán að lokum

Karen var yfirburðar leikmaður Fram í dag.vísir/daníel
Ágúst: Stebbi er búinn að tala um það í allan vetur og ég held að hann hafi rétt fyrir sér

„Við erum búin að spila frábærlega í vetur,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals eftir að þær tryggðu sér titilinn með sigri á Fram fyrr í dag. 

„Við lentum í smá basli með sóknarleikinn í seinni hálfleik þegar þær fóru í 5+1. Við slökuðum svo bara aðeins á og Morgan steig upp, sem var frábært“ sagði Ágúst sem hrósar þar innkomu Morgan Marie Þorkelsdóttir sem steig upp á lokakaflanum

Leikurinn var jafn, 21-21, þegar 5 mínútur voru eftir en Valskonur rifi sig þá í gang, Morgan Marie steig upp eins og áður sagði og Íris Björk Símonardóttir varði allt, þar á meðal tvö víti. 

„Það er ekkert nýtt að hún sé að verja, hún er frábær í rammanum og varnarleikurinn er alltaf góður, við spilum frábæra vörn með Önnu (Úrsúlu Guðmundsdóttir) þarna í miðjunni, þvílíkur leikmaður að það hálfa væri nóg.“ 

Ágúst getur ekki annað en talað um frammistöðu Írisar Bjarkar og Önnu Úrsúlu, þvílíkir leikmenn segir Gústi og það eru orð að sönnu. Íris Björk var valin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar að leik loknum. 

Valur hefur nú unnið alla titla sem í boði eru og viðurkenni Gústi að þær séu þá líklega besta lið landsins.

„Stebbi Arnars er búinn að tala um það allan veturinn að við séum langbesta liðið á landinu svo ég held að hann hafi bara rétt fyrir sér.“

Lovísa og Díana Dögg hlaupa um með bikarinn.vísir/daníel
Ragnheiður: Ég vil bara vinna gull

Ragnheiður Júlíusdóttir var ansi svekkt að leik loknum og segist ekki hafa búist við því að verða sópað úr úrslitakeppninni þetta árið

„Við ætluðum okkur aldrei að tapa 3-0, ég er bara ógeðslega svekkt. Ég hélt að þetta yrði miklu meira hörkuleikir en svona er þetta bara og við verðum að sætta okkur við þetta.“

„Mér finnst þessi lið jöfn, en þær komu bara betur stefndar inní þetta einvígi en við. Við vorum sex mörkum undir í hálfleik í dag og náum svo að jafna leikinn sem sýnir hversu góðar við erum. Því miður náðum við ekki að halda góðri vörn út allan leikinn og því fór sem fór.“ sagði Ragnheiður um gang mála í dag

Ragnheiður segir að margir væru ánægðir með árangurinn á tímabilinu, að það sé ekki slæmt að lenda í öðru sæti en segist sjálf alls ekki sátt með þetta og að þetta séu mikil vonbrigði fyrir hana.

„Mér persónulega finnst þetta vera vonbrigði, ég vil alltaf vinna gull. Enn ég meina, það er ekkert slæmt að lenda í öðru sæti í deild, bikar og íslandsmóti en já mér finnst þetta vonbrigði því að við eigum ekki að tapa þremur titlum. Við vorum sjálfum okkur verstar.“

Ragnheiður segir að þetta tímabil ýti enn meira undir það að gera betur á næsta tímabili enda sé langt síðan Fram hefur ekki unnið neinn titil. Hópurinn verður áfram svona sterkur og litlar breytingar í kortunum

„Algjörlega, við ætlum okkur það. Hópurinn mun haldast svona, það ætla eiginlega allar að halda áfram svo við mætum brjálaðar inn í næsta tímabil og gerum betur þá.“

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira