Hún vill lítið tjá sig um efnið, svo eldfimt er það. Upplýsir þó að það hverfist mest um systurnar Mörtu og Abbý sem virðist elskulegar og hlýjar persónur – en annað komi smátt og smátt í ljós. Ellefu leikarar taka þátt.
„Blúndur og blásýra er farsi eftir Joseph Kesselring. Hann var fyrst settur upp á Broadway og Frank Capra gerði síðar fræga svarthvíta bíómynd eftir honum. Karl Ágúst gerði nýjustu íslensku þýðingu leikritsins, þá sem við notum,“ fræðir Guðný mig um. Hún segir hlutverkaskipan breytast í tímans rás. Til dæmis séu löggurnar í upphaflega verkinu skrifaðar fyrir karlmenn en Mosfellingar breyti þeim öllum í kvenlöggur.

Guðný María segir grósku í Leikfélaginu í Mosfellssveit. „Það er eitt öflugasta áhugaleikhús á Íslandi. Ég er alin upp í Mosó og leikstarfsemin hefur alltaf verið stór hluti af menningarlífinu. Á síðustu árum hefur leikfélagið boðið upp á námskeið fyrir börn og unglinga, það skilar sér. Starfið er samt í pínu hættu núna því mér skilst að bæjarskipulagið vilji leikhúsið burt, sem er óskiljanlegt því nóg pláss er í Mosfellssveit. Þar er leikmunadeild sem er haldið vel utan um. Bæði stúlka sem hannaði sviðsmynd og önnur sem hannaði búninga eru með rætur hér og nýkomnar úr námi í Bretlandi í sínum greinum. Þannig að ég var með einvalalið,“ segir Guðlaug María sem sjálf lærði leikstjórn á Ítalíu.
„Það var á annarri öld,“ segir hún hlæjandi. „En margir leikaranna í Mosó hafa sótt ótal námskeið og aðra fræðslu og eru með brennandi áhuga. Fólk í fullri vinnu en tilbúið að leggja á sig enn meiri vinnu sem er svo skemmtilegt við áhugaleikfélögin. Þar mætast allar stéttir samfélagsins, ekkert ólíkt og í kórastarfi.“
Næsta sýning á Blúndum og blásýru verður annað kvöld, 27. apríl, og svo verða sýningar á laugardögum fram eftir maí.