Deildarmeistarar Hauka unnu fyrsta leikinn á Ásvöllum á laugardaginn, 28-19, en Stjarnan svaraði fyrir sig með sigri í Mýrinni, 33-25, á annan í páskum.Það var fyrsti sigur Stjörnunnar í úrslitakeppni í 19 ár.
Tölfræðin er ekki beint með Stjörnunni í liði þegar kemur að oddaleikjum í úrslitakeppninni.
Á árunum 1992-2000 fór Stjarnan í sjö oddaleiki um sæti í undanúrslitum en tapaði þeim öllum. Vinni Stjarnan í kvöld kemst liðið í undanúrslit í úrslitakeppni karla í fyrsta sinn.
Stjarnan var oftar en ekki með vel mannað lið á 10. áratug síðustu aldar en var fyrirmunað að stíga yfir þann þröskuld sem 8-liða úrslitin voru.
Þrisvar töpuðu Stjörnumenn oddaleik á heimavelli og fjórum sinnum tókst þeim ekki að klára einvígi þrátt fyrir að vinna fyrsta leikinn í þeim.
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, tók þátt í einum þessara oddaleikja. Árið 1994 skoraði hann tíu mörk fyrir Val sem vann Stjörnuna, 24-22, í oddaleik. Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, skoraði níu mörk fyrir Stjörnuna.
Leikur Hauka og Stjörnunnar hefst klukkan 19:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Seinni bylgjunnar hefst klukkan 18:45.
VARÚÐ: ODDADAGUR!
@Haukarhandbolti v@stjarnanhandb
DB Schenker-höllin kl 19.30
#Seinnibylgjan með upphitun frá 18.45@logigeirsson, @Joigunnar og @DagurSigurdsson á pallinum. @Minnaermeira á greiningarskjánum.
Er upset í kortunum?#olisdeildin
— Seinni bylgjan (@Seinnibylgjan) April 24, 2019
Oddaleikir Stjörnunnar í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar:
1992
FH 25-23 Stjarnan
1994
Valur 24-22 Stjarnan
1995
Stjarnan 23-26 KA
1996
Stjarnan 26-27 Afturelding
1997
KA 23-18 Stjarnan
1999
Stjarnan 18-23 FH
2000
Fram 21-20 Stjarnan