Handbolti

Atli Ævar missir af fyrsta leiknum gegn Val

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atli Ævar verður fjarri góðu gamni í fyrsta leik Selfoss og Vals í Hleðsluhöllinni.
Atli Ævar verður fjarri góðu gamni í fyrsta leik Selfoss og Vals í Hleðsluhöllinni. vísir/bára
Atli Ævar Ingólfsson, línumaður Selfoss, hefur verið úrskurðaður í eins leiks bann vegna rauða spjaldsins sem hann fékk í sigrinum á ÍR, 28-29, í seinni leik liðanna í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í gær.

Atli Ævar missir því af fyrsta leik Selfoss og Vals í undanúrslitum Olís-deildarinnar. Leikurinn fer fram í Hleðsluhöllinni á Selfossi.

Þegar 16 mínútur voru liðnar af leik Selfoss og ÍR í gær fékk Atli Ævar beint rautt spjald fyrir að slá til Bergvins Þór Gíslasonar. Hann var þá búinn að skora tvö mörk.

Selfyssingar unnu báða leikina gegn ÍR-ingum með eins marks mun. Þeir eru því komnir í undanúrslit annað árið í röð.

Atli Ævar, sem er þrítugur, er nýbúinn að framlengja samning sinn við Selfoss um tvö ár. Hann er á sínu öðru tímabili hjá liðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×