Erlent

Yfir hundrað látnir í sprengjuárásum á Sri Lanka

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Viðbragðsaðilar kanna skemmdir í kirkju heilags Antóníusar í Colombo á páskadag.
Viðbragðsaðilar kanna skemmdir í kirkju heilags Antóníusar í Colombo á páskadag. Vísir/Getty
Minnst 156 létust og hundruð særðust til viðbótar í sprengjuárásum á kirkjur og hótel í Sri Lanka á páskadag.

Vitað er um að minnsta kosti sex árásir í borgunum Kochichikade, Negombo, Batticaloa og Colombo en páskaguðsþjónusta stóð yfir í þremur kirkjum þegar árásirnar dundu yfir þær. Þá var einnig ráðist á hótelin Changri La, Cinnamon Grand og Kingsbury, sem öll eru staðsett í Colombo.

Að minnsta kosti 35 hinna látnu eru erlendir ríkisborgarar. Þá greinir Reuters-fréttaveitan frá því að yfir 50 manns hafi látist í einni árásinni.

Forseti Sri Lanka, Maithripala Sirisena, sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem hann hvatti landsmenn til að sýna yfirvegun og styðja yfirvöld við rannsókn á árásunum. Þá hefur verið boðað til neyðarfundar í forsætisráðuneyti landsins vegna málsins.

Mangala Samaraweera, fjármálaráðherra Sri Lanka, sagði að svo virtist sem árásirnar væru „vel skipulögð tilraun til að skapa morð, ringulreið og stjórnleysi“.



Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásinni. Í frétt BBC segir að óttast sé að vígamenn hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki og snúið hafa aftur til heimalandsins ógni öryggi þjóðarinnar. Síðustu ár hefur töluvert borið á ofbeldi í garð múslima í Sri Lanka en landsmenn eru að miklum meirihluta búddistar og hindúar.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×