Lögregla í Noregi leitaði í gær í tveimur stöðuvötnum, Langvannet og Vesletjernet, sem bæði eru í grennd við heimili Anne-Elisabeth Hagen, einnar ríkustu konu Noregs sem rænt var í lok október síðastliðnum. Áður hafði aðeins verið leitað í fyrrnefnda vatninu.
Í tilkynningu frá lögreglu sem send var út í gær segir að leit muni standa yfir þangað til á morgun, miðvikudag, en lögreglumenn á bátum hafa þrætt bæði vötnin. Þá nýtur lögregla aðstoðar hunda við leitina og hefur beðið almenning að halda sig frá leitarsvæðinu.
Kafarar leituðu fyrr í vetur í Langvannet, sem er staðsett steinsnar frá heimili Hagen og eiginmanns hennar, Tom Hagen, í Lorenskógi í grennd við Ósló. Haft er eftir Tommy Brøske, lögreglustjóra sem stýrt hefur leitinni að Anne-Elisabeth, að leitin í Vesletjernet byggi ekki á nýjum upplýsingum í málinu.
Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabeth síðan 31. október síðastliðinn. Lögregla gengur út frá því að henni hafi verið rænt af heimili sínu en síðast settu meintir mannræningjar sig í samband við lögreglu þann 12. febrúar. Þá hefur lögreglu borist 1600 ábendingar í tengslum við málið síðan greint var frá hvarfi Anne-Elisabeth í janúar en engar vísbendingar hafa enn borist um að hún sé á lífi.
Hefja leit í öðru stöðuvatni

Tengdar fréttir

Hafa flett ofan af fleiri skrefum í áætlun mannræningjanna
Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá þessu en ekki hefur verið fjallað áður um umræddar vísbendingar.

Svikahrappar reyna að kúga fé út úr eiginmanni Anne-Elisabethar
Lögregla hefur nokkrar slíkar tilraunir til rannsóknar.

Ummerki um að Anne-Elisabeth hafi verið dregin út af baðherberginu
Ekki hefur verið greint áður frá þessum vísbendingum í tengslum við hvarfið en norska dagblaðið Verdens gang fjallaði fyrst um málið í kvöld.