Handbolti

Kristinn: Mikið búið að ganga á

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leik Hauka og ÍBV fyrr á leiktíðinni.
Úr leik Hauka og ÍBV fyrr á leiktíðinni. vísir/bára
„Gríðarlega sáttur og stoltur af strákunum,” sagði Kristinn Guðmundsson annar þjálfara ÍBV eftir sigurinn gegn haukum í kvöld.

Með sigrinum tryggði ÍBV sér oddaleik á laugardaginn en sigurliðið á laugardaginn mætir Selfyssingum í úrslitaleik Olís-deildarinnar.

„Við áttum í miklum erfiðleikum í síðasta leik og mikið búið að ganga á og okkur tókst að stilla okkur inn á að spila góðan handbolta. Þéttum okkur varnarlega og mætum þeirra seinni bylgju vel sem er þeirra helsta vopn. Við látum þá stilla upp á móti okkur og það var gott. Við vorum agaðir lengst af sóknarlega en við vorum áræðnir.”

„Við höfum verið að byrja þessa leiki oft ágætlega hérna heima í úrslitakeppninni. Þetta hefur ekki verið sama forgjöfin og oft áður. Þessir strákar þrífast best í þessu andrúmslofti. Að allt sé undir og mikil læti.”

Fjölmennt var í salnum í dag. Eitthvað sem Kristinn er alltaf jafn ánægður með.

„Þessi stúka. Þetta verður alltaf meira og meira. Maður fann allan titringinnn frá fólkinu í dag og það eru rosaleg forréttindi að vera í kringum handbolta í Vestmannaeyjum.”

„Næsti leikur er bara 50/50 leikur. Það verður líklega rosaleg mæting úr Eyjum í næsta leik, með Landeyjahöfn og alltsaman. Ég held að þetta verði ennþá flottara og betra!”

„Við verðum að hugsa um að þetta sé sami völlurinn og kalla fram það sama og hérna í dag. Úrslitakeppni snýst um frumkvæði og við erum með frumkvæði núna og það er okkar að hugsa aggresíft áfram og skoða leikinn.“

„Hvar getum við sótt varnarlega eða sóknarlega og vera tilbúnir undir erfiðan leik á laugardaginn. Haukarnir eru með frábæra þjálfara og leikmenn og koma til með að fara yfir þetta, rétt eins og við,” sagði Kristinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×