Greining Íslandsbanka kynnti í dag skýrslu um stöðu íslenskrar ferðaþjónustu, helstu áskoranir og rekstrarumhverfi fyrirtækja í greininni. Flugframboð er einn þeirra þátta sem hefur áhrif á fækkun ferðamanna en meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að framboð flugsæta dragist saman um 28% með gjaldþroti WOW air. Icelandair auki þó framboð sitt um 14% og önnur erlend flugfélög um 5%.
„Afkoman verður verri á þessu ári heldur en á því síðasta og það bætist mjög mikið ofan á og við teljum að það verði töluvert mikið fall á gjaldeyristekjum á þessu ári,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri samtaka ferðaþjónustunnar.
Þá er það meðal niðurstaðna skýrslunnar að tæplega helmingur fyrirtækja í greininni skili tapi. Þá muni hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu fjölga um 8% á árinu á sama tíma og ferðamönnum fækkar. Aðspurður kveðst Jóhannes Þór ekki líta svo á að farið hafi verið of geyst í hóteluppbyggingu. Þörfin hafi verið til staðar. „Það verður flókin framtíð svona næstu kannski 12 til 18 mánuði. Það verður hagræðingarfasi og kannski meiri samþjöppun heldur en við áttum von á og það er ekki sársaukalaust,“ segir Jóhannes.
„Það er alveg óhjákvæmilegt,“ bætir hann við, spurður hvort það stefni í aukinn samruna fyrirtækja í ferðaþjónustu.