Iceland Music News, kómískur fjölmiðill á vegum Hatara, ræddi við foreldra söngvara Hatara til að kynnast söngvurunum betur.
„Svo er hann ljúfur og skemmtilegur á sama tíma,“ segir Nikulás, faðir Klemensar. Rán bætir við að þau elski son sinn mjög mikið.
„Við erum náttúrulega algjörlega hlutlaus,“ segir Nikulás og skellir upp úr.

Ekki rosa celeb
„Matthías er spekingur. Hann sagði kannski ekki endilega mikið en oft datt upp úr honum eitthvað sem að hljómaði eins og einhver myndi segja sem væri miklu eldri en hann. Hann fór oft á dýptina en hann var líka mjög fylginn sér,“ segir Ágústa Kristín Andersen, stjúpmóðir Matthíasar.„Hann hefur heilunarmátt. Hann uppgötvaðist á leikskóla. Leiðinleg börn voru alltaf látin leika við Matthías til að róa þau, hafa þau góð. Ekki leiðinleg, erfið,“ segir faðirinn Haraldur Flosi Tryggvason.
Jórunn Elenóra, systir Matthíasar, segist ekki líta á bróður sinn sem einhverja stjörnu.
„Hann er bara mjög skemmtilegur og góður bróðir myndi ég segja. Og ég hef lært mjög mikið af honum. Matti verður alltaf Matti fyrir mér. Hann er bara bróðir minn og ekki beint eitthvað rosa celeb.“

Rosalega ólíkir
„Í alvöru talað þá hefur þessi hugsjónamennska fylgt honum ansi lengi. Hann hefur áhrif á mann. Maður áttar sig á því að hann er sérstakur drengur. Það var mjög áberandi hvað hann var ljúfur, blíður og mikill hugsuður.“Rán, móðir Klemensar, segir alltaf hafa verið mjög sterkt samband á milli þeirra frænda.

„Ég sá alltaf fyrir mér að ef þetta héldi áfram að þeir myndu gera skemmtilega hluti saman því þeir bæta hvorn annan svo mikið upp.“