Handbolti

Fleiri þurfa að stíga upp hjá Haukum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Selfoss og Haukar mætast öðru sinni í úrslitaeinvígi sínu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta annað kvöld. Einar Andri Einarsson segir Hauka verða að nýta tækifæri sín ef þeir ætli að hafa betur.

Selfoss vann fyrsta leikinn á heimavelli Hauka 27-22 á þriðjudaginn og getur sett deildarmeistarana upp við vegg með sigri í Hleðsluhöllinni í Iðu annað kvöld.

„Selfyssingar hafa spilað frábærlega á heimavelli í allan vetur, þannig að það er ljóst að það verður erfitt fyrir Haukana að fara þangað,“ sagði Einar Andri, sem þjálfar Aftureldingu í Olísdeildinni, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Haukarnir vita að þeir þurfa að svara fyrir sig, það er mikil hola að lenda 2-0 undir, en Haukar hafa verið undir áður í úrslitum og kunna að koma til baka. Það verður erfitt fyrir Selfyssinga að fá særða Hauka á sinn heimavöll.“

Hvað þurfa Haukar að gera öðruvísi frá þriðjudeginum til þess að ná sigri?

„Þeir þurfa ekki að breyta miklu, þó þeir hafi bara skorað 22 mörk var sóknarleikurinn ágætur, þeir spiluðu sig í góð færi en Sölvi [Ólafsson] átti stórkostlegan leik í markinu. Þeir kannski útfæra taktík öðruvísi, en í heildarmyndinni held ég að þeir séu þokkalega ánægðir með sinn leik.“

„Þeir þurfa að nýta færin betur, lykilmenn þurfa að stíga upp, Daníel Þór Ingason bar liðið á herðum sér og það er ekki nóg að einn, tveir lykilleikmenn séu að bera þetta uppi.“

Leikur tvö í úrslitaeinvíginu hefst 19:30 í Hleðsluhöllinni annað kvöld, föstudaginn 17. maí. Seinni bylgjan hefur upphitun 18:45 á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×