Það var ekki mjög sumarlegt á nyrsta enda Tröllaskaga þegar fréttamaður hitti nokkra brimbrettakappa sem voru þar við æfingar. Sjórinn var kaldur, kalt í lofti og það örlaði á snjókomu en það stoppaði ekki brimbrettakappana.
Áður en að haldið var út í sjóinn lagði brimbrettakappinn Ingó Ólsen línurnar, kynntu undirstöðuatriðin og hvernig mætti koma í veg fyrir að kuldinn myndi bíta.
„Það er búið að komast að því að það er hægt gera þetta á kaldari stöðum. Það er búið að þróa búnaðinn í gegnum árin þannig að þetta er auðveldara. Þetta þarf ekkert að vera kalt ef maður hefur bara réttu rútínuna og búnað,“ segir Ingó.

„Síðan snýst þetta bara um að eyða tíma í sjónum. Klárlega er gott að fá leiðsögn til að byrja með, kynnast búnaðinum, brettunum og hvað maður þarf að hafa í huga. Síðan þarf maður bara að vera duglegur að fara og djöflast,“ segir Ingó.
Er þetta hættulegt?
„Þetta þarf ekki að vera hættulegt en þetta getur klárlega verið hættulegt. ísland er ekki mjög byrjendavænn staður en það geta verið mjög fínir dagar. Maður þarf bara að velja þá rétt eins og við gerðum hér í dag.“

„Þetta er geðveikt, algjörlega geðveikt. Ég er að gera þetta í fyrsta skipti og þetta er algjörlega truflað,“ segir Halldór Ingvason.
Er þetta ekkert kalt?
„Nei, ekki vitund.“
„Maður finnur að í hvert skipti verður þetta meir og meira gaman. Maður lærir meira og meira,“ segir Jónas Stefánsson.
Það er æfingin sem skapar meistarann?
„Algjörlega, það er bara svoleiðis.“