
Árið 2000 var áætlað að 970 milljónir barna væru rændar bernskunni vegna þess að þau voru látin ganga í hjónaband, vegna þungunar, voru útilokuð frá menntun, voru veik, vannærð eða létu lífið vegna ofbeldis. Þessi tala hefur nú lækkað í 690 milljónir – sem þýðir að í það minnsta 280 milljónir barna hafa það betra í dag en þau hefðu haft fyrir tveimur áratugum.
Skýrslan byggist á viðmiðum sem notuð hafa verið síðustu ár og kallast End of Childhood Index. Niðurstöður sýna að frá árinu 2000 hefur staða barna batnað í 173 löndum af 176. Það þýðir að:
- 4,4 milljónum færri börn deyja á hverju ári
- 49 milljónum færri börn eru með þroskaskerðingu af völdum vannæringar
- 130 milljónum fleiri börn ganga í skóla
- 94 milljónum færri börn stunda vinnu
- 11 milljónum færri stúlkur eru þvingaðar í hjónaband
- 3 milljónum færri fæðingar eru meðal unglingsstúlkna
- 12 þúsund færri börn eru myrt á ári hverju
Singapúr trónir á toppnum yfir þau lönd sem búa best að börnum sínum ásamt átta öðrum löndum í Vestur-Evrópu og Suður-Kóreu sem verma tíu efstu sætin. Ísland er í 11. sæti. Mestu framfarirnar voru í sumum af fátækustu löndum heims eins og Síerra Leóne, Rúanda, Eþíópíu og Níger. Mið-Afríkulýðveldið er í neðsta sæti, Níger í því næst neðsta, þrátt fyrir nýlegar framfarir þar í landi, og Tsjad í þriðja neðsta. Í þessum þremur löndum er bernskunni hvað mest ógnað.
Sjá nánar á vef Barnaheilla - Save the Children á Íslandi.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.