Enski boltinn

Fer ekki til Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raphael Varane.
Raphael Varane. Vísir/Getty
Raphael Varane, miðvörður heimsmeistara Frakka, verður áfram hjá Real Madrid á næstu leiktíð þrátt fyrir að mikið hafi verið skrifað um annað í erlendum fjölmiðlum.

Þessi 25 ára gamli varnarmaður mun því ekki fara til Manchester United en Ole Gunnar Solskjær er að leita að nýjum miðverði fyrir komandi tímabil.

Real Madrid átti skelfilegt tímabil, endaði í þriðja sæti í spænsku deildinni 19 stigum á eftir meisturum Barcelona. Liðið átti ekki möguleika á því að vinna neinn titil á lokakaflanum og tímabilið var í raun búið þegar liðið datt út úr Meistaradeildinni í mars.

„Ég vil vera áfram í Madrid og ég er viss um að við verðum sterkir á næsta tímabili,“ sagði Raphael Varane við spænska íþróttablaðið Marca.





„Við viljum snúa við blaðinu og koma til baka í haust með eitthvað nýtt,“ sagði Varane.

„Ég er enn þá ungur og tel mig ver kominn á það stig að geta nú sameinað ungan aldur og reynslu. Ég vonast til að næsta tímabil verða það besta sem þið hafið séð frá Varane hingað til,“ sagði Raphael Varane.

Paul Pogba, liðsfélagi Varane í franska landsliðinu, hefur verið sterklega orðaður við lið Real Madrid.

„Ég get ekki sagt að við tölum saman um þann möguleika en hann er frábær leikmaður sem gæti spilað fyrir Real Madrid. Það er mikil samkeppni hér. Við sjáum til hvar hann verður í ágúst,“ sagði Varane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×