Landsréttur staðfesti í gær að karlmaður sem grunaður er um að hafa beitt barnsmóður sína kynferðislegu ofbeldi, meðal annars með dreifingu nektarmynda af henni, skuli sæta tveggja vikna gæsluvarðhaldi.
Maðurinn er grunaður um að hafa sent myndirnar á 235 netföng og að hafa birt þær á samfélagsmiðlum. Myndirnar á hann meðal annars að hafa sent til fjölskyldu konunnar, vina hennar, foreldra barna í bekk sonar þeirra og fleiri.
Fram kemur í úrskurðinum að rannsókn málsins hafi hafist í febrúar þegar konan lagði fram kæru á hendur manninum. Hún lýsti því í skýrslutökum að síðastliðin fjögur ár hefði maðurinn beitt hana miklu andlegu ofbeldi, og sagði hann hafa tryllst þegar hún vísaði honum út af heimili sínu. Í kjölfarið hefði hann byrjað að dreifa um tuttugu nektarmyndum af henni, sparkað í síðu hennar, hellt yfir hana mjólk og slegið son þeirra kinnhest.
Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að í febrúar og mars hafi 121 tölvupóstur verið sendur á 235 mismunandi netföng, en talið er að fleiri en einn viðtakandi geti verið að baki nokkrum þeirra póstfanga. Afrit af meirihluta tölvupóstanna var sent konunni.
Maðurinn hefur neitað að tjá sig við lögreglu, að öðru leyti en því að hann kannist ekki við netföngin sem tölvupóstarnir voru sendir úr. Héraðsdómur féllst á að rökstuddur grunur væri um að hann hefði gerst sekur um brotin, og taldi ekki útilokað að hann gæti torveldað rannsókn málsins, svo sem með því að eyða rafrænum sönnunargögnum, gangi hann laus.
Sendi nektarmyndir af barnsmóður sinni á yfir 200 netföng
Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
