Sjö suður-kóreskir ferðamenn eru látnir og nítján hið minnsta er enn saknað eftir að útsýnisbát hvolfdi á Dóná í ungversku höfuðborginni Búdapest í gærkvöldi.
Í frétt BBC segir að þrjátíu ferðamenn, þrír leiðsögumenn, auk tveggja ungverskra áhafnarmeðlima hafi verið um borð í bátnum sem rakst á annan bát sem lá við bryggju.
Slysið átti sér stað nærri ungverska þinghúsinu klukkan 22 að staðartíma í gærkvöldi. Mikil rigning var á staðnum sem torveldaði allt björgunarstarf og var mikið í ánni.
Báturinn sem um ræðir nefnist Hableany, eða Hafmeyja. Rannsókn er hafin á tildrögum slyssisins en talsmaður ungverskra yfirvalda telur að um mannleg mistök hafi verið að ræða.

