Bjarni segir að í áætluninni sé víða komið við, bæði á tekju- og gjaldahlið og segir það vera skyldu ríkisstjórnarinnar að ganga eins vel um sameiginlega sjóði og mögulegt er. Bjarni svarar þá gagnrýni þingmanns Samfylkingarinnar, Ágústs Ólafs Ágústssonar sem sagðist í samtali við fréttastofu í dag vera í „hálfgerðu áfalli við lestur breytingatillagna á fjármálaáætlun.“
Sjá einnig: Í áfalli vegna fjármálaáætlunnar
Bjarni skýtur þá á Samfylkinguna og segir flokkinn hafa helst lagt það til að auka skattlagningu og verja í varanleg útgjöld. „Af þessu tilefni hefur þingmaðurinn Ágúst Ólafur Ágústsson haft uppi stór orð og er ekki annað að skilja en að hann sé enn að jafna sig eftir að hafa séð tillögurnar í nefnd þingsins. Flokkur hans hefur helst lagt það til að auka skattlagningu um 25-35 milljarða og verja því meira og minna öllu í varanleg útgjöld“ skrifar Bjarni.
Með pistlinum lætur Bjarni fylgja með graf sem sýnir þróun framlaga til málefnasviðs 27, sem er „Örorka og málefni fatlaðs fólks“ en Ágúst hafði gagnrýnt breytingar á fjármálaáætlun sem myndu lækka framlög til málaflokksins um tæpa átta milljarða frá því sem kynnt hefði verið.
„Á málefnasviðinu örorka og málefni fatlaðs fólks verður samkvæmt tillögum, sem kynntar hafa verið fjárlaganefnd og eru þar til meðferðar, áhersla lögð á að auka skilvirkni, bæta nýtingu fjármuna og huga að samspili við önnur stuðningskerfi. Engin áform eru hins vegar uppi um niðurskurð í bótakerfum,“ skrifar Bjarni, en pistil Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins má sjá hér að neðan.