Alls voru 35 um borð í bátnum – 33 suður-kóreskir ferðamenn og tveir Ungverjar sem voru í áhöfn. Sjö farþegar björguðust þegar báturinn rakst á skemmtiferðaskip og hvolfdi við Margrétarbrúna, nærri ungverska þinghúsinu að kvöldi 29. maí.
Leitað hefur verið að fórnarlömdum í ánni, meðfram bökkum og úr lofti, allt suður að landamærunum Ungverjalands og Serbíu, um 200 kílómetrum suður af Búdapest. Meðal þeirra sem saknað er er ungverskur skipstjóri bátsins og suður-kóreskt barn. Slysið er það mannskæðasta á þessari lengstu á álfunnar í um hálfa öld.
Mikið hefur verið í ánni og hefur straumþunginn torveldað allt björgunarstarf. Enn er unnið að því að að ná flaki bátsins af botninum.
Yfirvöld í Slóvakíu hafa samþykkt að beina hluta vatns í ánni í annan farveg til að hægt sé að lækka vatnsyfirborðið í Búdapest og þannig auðvelda björgunarmönnum sitt starf.
Áður hefur verið greint frá því að skipstjóri skemmtiskipsins Viking Sigyn, sem lenti í árekstrinum við útsýnisbátinn Hafmeyjuna, hefur verið ákærður og úrskurðaður í þrjátíu daga gæsluvarðhald. Er hann sakaður um að hafa ógnað umferðaröryggi á ánni. Skipstjórinn er frá Úkraínu og er hann 64 ára gamall.